Saturday, January 17, 2009

Fram til nýrrar sóknar!

Stuðningsmenn mínir í framboði mínu til formanns Framsóknarflokksins hafa gefið út bækling undir heitinu Fram til nýrrar sóknar. Á forsíðunni er þessi tilvitnun í inngangsorð mín:

„Ég býð mig fram til formanns Framsóknarflokksins sem málsvari breytinga og endurnýjunar í krafti skýrrar stefnu. Flokksmenn sameinast um málefni og þeir sameinast um formann sem þeir treysta til að framfylgja stefnunni. Í hreyfingu sem heldur í heiðri lýðræðisleg gildi er forystan bundin af vilja fjöldans, því er ekki öfugt farið. Með samvinnu og samstöðu flokksmanna eru okkur allir vegir færir.“

Í bæklingnum er farið stuttlega yfir hugmyndir mínar um samvinnu, skuldbreytingu heimila, velferðarmál, atvinnumál, aukið lýðræði í flokknum og á landsvísu og umsókn um aðild að ESB.

Með bæklingnum vildi ég leggja mitt af mörkum til málefnalegs undirbúnings Framsóknarflokksins. Nauðsynlegt er að skýr stefnumörkun liggi fyrir að loknu flokksþingi okkar - og að okkur auðnist að leggja fram lausnir. Þær þurfa að taka mið af því að fólk, almenningur, sitji í fyrirrúmi.

Hægt er að lesa bæklinginn á netinu með því að smella á tengilinn hér fyrir neðan.

Thursday, January 15, 2009

Skuldbreyting heimilanna


Stjórnvöldum hefur loksins skilist að almenningur lætur ekki lengur bjóða sér samtryggingu fjármálakerfisins og fyrirskipuðu breytingar á stjórn nýju ríkisbankanna. Betra seint en aldrei. Stjórnmálamennirnir eru samt áfram fastir í gamaldags samtryggingarhugarfari þar sem þeir skipuðu bankaráðin pólitískt en ekki á faglegum grunni.
Því miður bíða okkar erfiðir tímar sem geta leikið heimili og fyrirtæki grátt. Verðbólga hækkar skuldir í gegnum verðtryggð lán og gengisfall krónunnar veldur hækkun á afborgunum erlendra lána. Við þetta bætist að tekjur launafólks fara lækkandi. Af þessu leiðir að margir munu ekki geta staðið við skuldbindingar. Þess vegna þarf að lækka skuldir eða greiðslubyrði.
Bjóða þarf upp á greiðsluaðlögun þannig að afborganir af húsnæðislánum fari ekki upp fyrir tiltekið hlutfall heildartekna, t.d. 20–30%. Hluti af skuldunum er þá í skilum en almenningi er jafnframt gert kleift að standa undir rekstri heimila sinna. Sá hluti skuldanna, sem ekki er greitt af, verði frystur.

Sanngjarnar reglur
Ríkisstjórnin verður að tryggja að bankar og lífeyrissjóðir veiti svikalaust sömu aðstoð vegna greiðsluerfiðleika og Íbúðalánasjóður. Þessum tilmælum hefur ekki verið sinnt og þarf því væntanlega að hnykkja á því í lögum. Greiðsluerfiðleikaaðstoð Íbúðalánasjóðs felst í því að lán eru fryst til allt að þriggja ára, lánstíminn lengdur og vanskil færð í skuldabréf.

Loks verður að útfæra leið til skuldbreytingar á almennum húsnæðislánum þegar allar forsendur liggja fyrir, svo sem hvernig farið er með gjaldeyrislán, hvernig efnahagsreikningur nýju bankanna muni líta út og þar með styrkur þeirra og niðurstaða liggur fyrir um athugun Seðlabankans á áhrifum efnahagshrunsins á heimilin. Stjórnvöld verða að lýsa yfir vilja til að afskrifa hluta af húsnæðislánum þeirra sem verst verða staddir þegar rykið sest. Annars er hætta á að fjölskyldur missi heimili sín og aleigu til banka og lífeyrissjóða. Gleymum því ekki að þessir sömu bankar og lífeyrissjóðir eru eign fólksins í landinu.

birt í Fréttablaðinu 15.janúar 2009

Monday, January 12, 2009

Samvinna og samstaða

Framsóknarflokkurinn sprettur úr samvinnuhreyfingu sem beitti sér fyrir því að efla samtakamátt þjóðarinnar. Skýtur því skökku við að hann virðist oft loga í flokkadráttum og skæruhernaði. En ekki er allt sem sýnist. Ég hef ekki orðið var við annað en eindrægni og samstöðu um að efla Framsóknarflokkinn á fundum mínum með flokksmönnum vegna framboðs míns til formanns flokksins.

Ég hef kosið að haga framboði mínu í samræmi við það. Ég hef kynnt mín baráttumál, mína persónu og reynslu, ekki síst úr stjórnmálum, bæði á fundum, í viðtölum og á heimasíðu minni, og lýst því yfir að ég sé fús til samstarfs við aðra frambjóðendur sem sækjast eftir sæti í forystu flokksins; einhverjir hafa talað um sögulegar sættir þó að ég kannist ekki við að nokkur sá ágreiningur hafi verið uppi sem þurfti að sætta. Með samvinnu og samstöðu eru okkur framsóknarmönnum allir vegir færir.

Málsvari breytinga

Ég býð mig fram til formanns Framsóknarflokksins sem málsvari breytinga og endurnýjunar í krafti skýrrar stefnu. Ég hef fylgt flokknum að málum í tvo áratugi og á þeim tíma unnið með flestum sem framsóknarmenn og flokksforystan hafa valið til trúnaðarstarfa og æðstu embætta. Án þess lærdómsríka en stundum harða skóla vildi ég ekki vera nú þegar ég sækist eftir formannsembættinu í flokknum því að þannig hef ég kynnst sigrum og ósigrum, framförum og afturförum, samstöðu og ágreiningi, og lært bæði af því sem hefur heppnast vel og heppnast miður.

Enginn einn maður sameinar stjórnmálaflokk. Flokksmenn sameinast um málefni og þeir sameinast um formann sem þeir treysta til að framfylgja stefnunni. Formaður á að vera kjölfesta á markvissri siglingu, ekki stafnskraut á stjórnlausu reki.

Sögulegt tækifæri

Persónulegar væringar og átök um völd, þar sem enginn raunverulegur málefnaágreiningur er fyrir hendi, veikja aðeins innviði flokksins. Framsóknarflokkurinn hefur tækifæri á flokksþingi sínu nú í janúar til að taka forystu í íslenskum stjórnmálum, verða fyrsti flokkurinn sem svarar kallinu um nýjar og lýðræðislegar aðferðir, fagleg vinnubrögð framar flokkspólitískum og varðstöðu um hagsmuni heimilanna í landinu. Þetta tækifæri okkar framsóknarmanna er sögulegt. Mætum því til flokksþingsins með opnum huga. Látum málefnin ráða ákvörðunum okkar á þinginu svo að hagur flokksins og hagur almennings fari saman. Í því efnahagsöngþveiti sem ríkir er krafist trúverðugrar stefnu, lausna sem duga og traustra forystumanna.

Opin stjórnsýsla

Að þessu mæltu lýsi ég mig reiðubúinn, hvar og hvenær sem er, til að standa skil á þeim upplýsingum sem krafist er af þingmönnum Framsóknarflokksins um hagsmuni og eignir í fyrirtækjum, sjóðum og fasteignum. Það er eðlilegt að formannsframbjóðendur uppfylli sömu skilyrði. Krafan um gegnsæja, heiðarlega og opna stjórnsýslu er sjálfsögð. Best fer á því að þeir sem gera tilkall til æðstu metorða í stjórnmálaflokkum hafi þá kröfu að leiðarljósi. Ég geri það.

(Mbl. 12. janúar 2009)

Tuesday, January 6, 2009

Velkominn Guðmundur!

Fréttablaðið greinir frá því í morgun að Guðmundur Steingrímsson hafi gengið til liðs við Framsóknarflokkinn og þar með sagt skilið við Samfylkinguna. Þetta eru góðar fréttir fyrir framsóknarfólk. Ekki síður er ánægjulegt að sjá eftir Guðmundi haft að hann hafi áhuga á því að taka þátt í endurreisnarstarfinu sem hafið er innan flokksins.

Ég þekki Guðmund frá háskólaárunum og starfinu innan Röskvu og þykist vita að honum á eftir að ganga vel í sínum störfum innan Framsóknarflokksins. Hann verður innan skamms tíma einn af fremstu mönnum í flokknum enda á hann það ekki langt að sækja.

Ég hef trú á því að fleiri en Guðmundur skynji þau sóknarfæri sem Framsóknarflokkurinn hefur nú um stundir.