Framsóknarflokkurinn sprettur úr samvinnuhreyfingu sem beitti sér fyrir því að efla samtakamátt þjóðarinnar. Skýtur því skökku við að hann virðist oft loga í flokkadráttum og skæruhernaði. En ekki er allt sem sýnist. Ég hef ekki orðið var við annað en eindrægni og samstöðu um að efla Framsóknarflokkinn á fundum mínum með flokksmönnum vegna framboðs míns til formanns flokksins.
Ég hef kosið að haga framboði mínu í samræmi við það. Ég hef kynnt mín baráttumál, mína persónu og reynslu, ekki síst úr stjórnmálum, bæði á fundum, í viðtölum og á heimasíðu minni, og lýst því yfir að ég sé fús til samstarfs við aðra frambjóðendur sem sækjast eftir sæti í forystu flokksins; einhverjir hafa talað um sögulegar sættir þó að ég kannist ekki við að nokkur sá ágreiningur hafi verið uppi sem þurfti að sætta. Með samvinnu og samstöðu eru okkur framsóknarmönnum allir vegir færir.
Málsvari breytinga
Ég býð mig fram til formanns Framsóknarflokksins sem málsvari breytinga og endurnýjunar í krafti skýrrar stefnu. Ég hef fylgt flokknum að málum í tvo áratugi og á þeim tíma unnið með flestum sem framsóknarmenn og flokksforystan hafa valið til trúnaðarstarfa og æðstu embætta. Án þess lærdómsríka en stundum harða skóla vildi ég ekki vera nú þegar ég sækist eftir formannsembættinu í flokknum því að þannig hef ég kynnst sigrum og ósigrum, framförum og afturförum, samstöðu og ágreiningi, og lært bæði af því sem hefur heppnast vel og heppnast miður.
Enginn einn maður sameinar stjórnmálaflokk. Flokksmenn sameinast um málefni og þeir sameinast um formann sem þeir treysta til að framfylgja stefnunni. Formaður á að vera kjölfesta á markvissri siglingu, ekki stafnskraut á stjórnlausu reki.
Sögulegt tækifæri
Persónulegar væringar og átök um völd, þar sem enginn raunverulegur málefnaágreiningur er fyrir hendi, veikja aðeins innviði flokksins. Framsóknarflokkurinn hefur tækifæri á flokksþingi sínu nú í janúar til að taka forystu í íslenskum stjórnmálum, verða fyrsti flokkurinn sem svarar kallinu um nýjar og lýðræðislegar aðferðir, fagleg vinnubrögð framar flokkspólitískum og varðstöðu um hagsmuni heimilanna í landinu. Þetta tækifæri okkar framsóknarmanna er sögulegt. Mætum því til flokksþingsins með opnum huga. Látum málefnin ráða ákvörðunum okkar á þinginu svo að hagur flokksins og hagur almennings fari saman. Í því efnahagsöngþveiti sem ríkir er krafist trúverðugrar stefnu, lausna sem duga og traustra forystumanna.
Opin stjórnsýsla
Að þessu mæltu lýsi ég mig reiðubúinn, hvar og hvenær sem er, til að standa skil á þeim upplýsingum sem krafist er af þingmönnum Framsóknarflokksins um hagsmuni og eignir í fyrirtækjum, sjóðum og fasteignum. Það er eðlilegt að formannsframbjóðendur uppfylli sömu skilyrði. Krafan um gegnsæja, heiðarlega og opna stjórnsýslu er sjálfsögð. Best fer á því að þeir sem gera tilkall til æðstu metorða í stjórnmálaflokkum hafi þá kröfu að leiðarljósi. Ég geri það.
(Mbl. 12. janúar 2009)