Saturday, January 17, 2009

Fram til nýrrar sóknar!

Stuðningsmenn mínir í framboði mínu til formanns Framsóknarflokksins hafa gefið út bækling undir heitinu Fram til nýrrar sóknar. Á forsíðunni er þessi tilvitnun í inngangsorð mín:

„Ég býð mig fram til formanns Framsóknarflokksins sem málsvari breytinga og endurnýjunar í krafti skýrrar stefnu. Flokksmenn sameinast um málefni og þeir sameinast um formann sem þeir treysta til að framfylgja stefnunni. Í hreyfingu sem heldur í heiðri lýðræðisleg gildi er forystan bundin af vilja fjöldans, því er ekki öfugt farið. Með samvinnu og samstöðu flokksmanna eru okkur allir vegir færir.“

Í bæklingnum er farið stuttlega yfir hugmyndir mínar um samvinnu, skuldbreytingu heimila, velferðarmál, atvinnumál, aukið lýðræði í flokknum og á landsvísu og umsókn um aðild að ESB.

Með bæklingnum vildi ég leggja mitt af mörkum til málefnalegs undirbúnings Framsóknarflokksins. Nauðsynlegt er að skýr stefnumörkun liggi fyrir að loknu flokksþingi okkar - og að okkur auðnist að leggja fram lausnir. Þær þurfa að taka mið af því að fólk, almenningur, sitji í fyrirrúmi.

Hægt er að lesa bæklinginn á netinu með því að smella á tengilinn hér fyrir neðan.

Thursday, January 15, 2009

Skuldbreyting heimilanna


Stjórnvöldum hefur loksins skilist að almenningur lætur ekki lengur bjóða sér samtryggingu fjármálakerfisins og fyrirskipuðu breytingar á stjórn nýju ríkisbankanna. Betra seint en aldrei. Stjórnmálamennirnir eru samt áfram fastir í gamaldags samtryggingarhugarfari þar sem þeir skipuðu bankaráðin pólitískt en ekki á faglegum grunni.
Því miður bíða okkar erfiðir tímar sem geta leikið heimili og fyrirtæki grátt. Verðbólga hækkar skuldir í gegnum verðtryggð lán og gengisfall krónunnar veldur hækkun á afborgunum erlendra lána. Við þetta bætist að tekjur launafólks fara lækkandi. Af þessu leiðir að margir munu ekki geta staðið við skuldbindingar. Þess vegna þarf að lækka skuldir eða greiðslubyrði.
Bjóða þarf upp á greiðsluaðlögun þannig að afborganir af húsnæðislánum fari ekki upp fyrir tiltekið hlutfall heildartekna, t.d. 20–30%. Hluti af skuldunum er þá í skilum en almenningi er jafnframt gert kleift að standa undir rekstri heimila sinna. Sá hluti skuldanna, sem ekki er greitt af, verði frystur.

Sanngjarnar reglur
Ríkisstjórnin verður að tryggja að bankar og lífeyrissjóðir veiti svikalaust sömu aðstoð vegna greiðsluerfiðleika og Íbúðalánasjóður. Þessum tilmælum hefur ekki verið sinnt og þarf því væntanlega að hnykkja á því í lögum. Greiðsluerfiðleikaaðstoð Íbúðalánasjóðs felst í því að lán eru fryst til allt að þriggja ára, lánstíminn lengdur og vanskil færð í skuldabréf.

Loks verður að útfæra leið til skuldbreytingar á almennum húsnæðislánum þegar allar forsendur liggja fyrir, svo sem hvernig farið er með gjaldeyrislán, hvernig efnahagsreikningur nýju bankanna muni líta út og þar með styrkur þeirra og niðurstaða liggur fyrir um athugun Seðlabankans á áhrifum efnahagshrunsins á heimilin. Stjórnvöld verða að lýsa yfir vilja til að afskrifa hluta af húsnæðislánum þeirra sem verst verða staddir þegar rykið sest. Annars er hætta á að fjölskyldur missi heimili sín og aleigu til banka og lífeyrissjóða. Gleymum því ekki að þessir sömu bankar og lífeyrissjóðir eru eign fólksins í landinu.

birt í Fréttablaðinu 15.janúar 2009

Monday, January 12, 2009

Samvinna og samstaða

Framsóknarflokkurinn sprettur úr samvinnuhreyfingu sem beitti sér fyrir því að efla samtakamátt þjóðarinnar. Skýtur því skökku við að hann virðist oft loga í flokkadráttum og skæruhernaði. En ekki er allt sem sýnist. Ég hef ekki orðið var við annað en eindrægni og samstöðu um að efla Framsóknarflokkinn á fundum mínum með flokksmönnum vegna framboðs míns til formanns flokksins.

Ég hef kosið að haga framboði mínu í samræmi við það. Ég hef kynnt mín baráttumál, mína persónu og reynslu, ekki síst úr stjórnmálum, bæði á fundum, í viðtölum og á heimasíðu minni, og lýst því yfir að ég sé fús til samstarfs við aðra frambjóðendur sem sækjast eftir sæti í forystu flokksins; einhverjir hafa talað um sögulegar sættir þó að ég kannist ekki við að nokkur sá ágreiningur hafi verið uppi sem þurfti að sætta. Með samvinnu og samstöðu eru okkur framsóknarmönnum allir vegir færir.

Málsvari breytinga

Ég býð mig fram til formanns Framsóknarflokksins sem málsvari breytinga og endurnýjunar í krafti skýrrar stefnu. Ég hef fylgt flokknum að málum í tvo áratugi og á þeim tíma unnið með flestum sem framsóknarmenn og flokksforystan hafa valið til trúnaðarstarfa og æðstu embætta. Án þess lærdómsríka en stundum harða skóla vildi ég ekki vera nú þegar ég sækist eftir formannsembættinu í flokknum því að þannig hef ég kynnst sigrum og ósigrum, framförum og afturförum, samstöðu og ágreiningi, og lært bæði af því sem hefur heppnast vel og heppnast miður.

Enginn einn maður sameinar stjórnmálaflokk. Flokksmenn sameinast um málefni og þeir sameinast um formann sem þeir treysta til að framfylgja stefnunni. Formaður á að vera kjölfesta á markvissri siglingu, ekki stafnskraut á stjórnlausu reki.

Sögulegt tækifæri

Persónulegar væringar og átök um völd, þar sem enginn raunverulegur málefnaágreiningur er fyrir hendi, veikja aðeins innviði flokksins. Framsóknarflokkurinn hefur tækifæri á flokksþingi sínu nú í janúar til að taka forystu í íslenskum stjórnmálum, verða fyrsti flokkurinn sem svarar kallinu um nýjar og lýðræðislegar aðferðir, fagleg vinnubrögð framar flokkspólitískum og varðstöðu um hagsmuni heimilanna í landinu. Þetta tækifæri okkar framsóknarmanna er sögulegt. Mætum því til flokksþingsins með opnum huga. Látum málefnin ráða ákvörðunum okkar á þinginu svo að hagur flokksins og hagur almennings fari saman. Í því efnahagsöngþveiti sem ríkir er krafist trúverðugrar stefnu, lausna sem duga og traustra forystumanna.

Opin stjórnsýsla

Að þessu mæltu lýsi ég mig reiðubúinn, hvar og hvenær sem er, til að standa skil á þeim upplýsingum sem krafist er af þingmönnum Framsóknarflokksins um hagsmuni og eignir í fyrirtækjum, sjóðum og fasteignum. Það er eðlilegt að formannsframbjóðendur uppfylli sömu skilyrði. Krafan um gegnsæja, heiðarlega og opna stjórnsýslu er sjálfsögð. Best fer á því að þeir sem gera tilkall til æðstu metorða í stjórnmálaflokkum hafi þá kröfu að leiðarljósi. Ég geri það.

(Mbl. 12. janúar 2009)

Tuesday, January 6, 2009

Velkominn Guðmundur!

Fréttablaðið greinir frá því í morgun að Guðmundur Steingrímsson hafi gengið til liðs við Framsóknarflokkinn og þar með sagt skilið við Samfylkinguna. Þetta eru góðar fréttir fyrir framsóknarfólk. Ekki síður er ánægjulegt að sjá eftir Guðmundi haft að hann hafi áhuga á því að taka þátt í endurreisnarstarfinu sem hafið er innan flokksins.

Ég þekki Guðmund frá háskólaárunum og starfinu innan Röskvu og þykist vita að honum á eftir að ganga vel í sínum störfum innan Framsóknarflokksins. Hann verður innan skamms tíma einn af fremstu mönnum í flokknum enda á hann það ekki langt að sækja.

Ég hef trú á því að fleiri en Guðmundur skynji þau sóknarfæri sem Framsóknarflokkurinn hefur nú um stundir.

Sunday, December 28, 2008

Milljörðum komið undan?

Ríkisskattstjóri segir í fréttum RÚV að enginn vafi leiki á því að ótilgreindum milljörðum króna hafi verið komið undan til aflandseyja fyrir hrun bankanna og Stöð 2 segir að efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjórans rannsaki grunsamlegar millifærslur upp á hundrað milljarða króna frá Kaupþingi á Íslandi inn á erlenda bankareikninga.

Stórfelldur útflutningur á fjármunum úr bönkunum getur ekki hafa verið á vitorði bara eins eða tveggja innan bankanna. Fleiri hafa búið yfir slíkri vitneskju og þagað - þangað til fyrir hálfum mánuði, ef trúa má fréttunum. Stjórnendur nýju bankanna voru flestir stjórnendur í gömlu bönkunum. Hversu trúverðug er rannsókn á aðdraganda hrunsins á fjármálamarkaði án aðkomu óháðra aðila með yfirgripsmikla þekkingu á bankaviðskiptum á alþjóðavettvangi?

Almenningur ber byrðarnar og ætlast til þess að málin verði upplýst. Ég hef lagt til og sé ástæðu til að ítreka það að erlendir sérfræðingar, sem hvorki tengjast íslenskum stjórnmálaflokkum, bönkum eða viðskiptamönnum, verði fengnir til að stýra rannsókn um hrunið og einnig til að hafa eftirlit með rekstri nýju bankanna.

Stjórnvöld hafa hag af því ekki síður en almenningur. Þau liggja eðlilega undir ámæli um að hafa gripið seint og illa inn í atburðarásina.

Saturday, December 27, 2008

Keisari án klæða

Kristrún Heimisdóttir, aðstoðarmaður Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur utanríkisráðherra, formanns Samfylkingarinnar, segir Stefán Jóhann Stefánsson, varaborgarfulltrúa flokksins, „sýna þekkingarleysi á sögu og stefnu Samfylkingarinnar“ þegar hann gagnrýnir flokkinn sinn fyrir að fara á svig við eigin lýðræðislegar reglur og láta undir höfuð leggjast að afla sér umboðs til að hefja viðræður um aðild að ESB.

Ég er einn af þeim sem hef lagt út af orðum varaborgarfulltrúans sem mætti ætla að vissi um hvað hann væri að tala, innmúraður Samfylkingarmaður og sérstakur fulltrúi flokksins í starfshópi um markmið aðildarsamninga. Ég las því „leiðréttingu“ Kristrúnar gaumgæfilega en sé að efnisatriðunum í málflutningi Stefáns Jóhanns er hvergi mótmælt, aðeins látið í það skína að hann sé ólæs á sögu og stefnu flokksins.

Þótt Kristrúnu hafi verið sigað að hætti hússins til að ófrægja og þannig þagga niður í óþægilegri gagnrýnisrödd innan flokksins, er ekkert í „leiðréttingunni“ úr utanríkisráðuneytinu sem hnekkir því sem Stefán Jóhann hefur sagt. Forysta Samfylkingarinnar er umboðslaus og getur ekki gengið til samninga um aðild að Evrópusambandinu án þess að brjóta samráðsreglur innan flokksins sem settar hafa verið með lýðræðislegum hætti.

Samfylkingin hélt útsölu á stefnumálum sínum þegar hún myndaði ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum. Allt var falt fyrir völdin. Hafi Framsóknarflokkurinn verið hækja, þá er Samfylkingin skækja. Núna fyrst, þegar ríkisstjórnin er búin að æsa þjóðina upp á móti sér með vítaverðum lausatökum á efnahagsmálunum og allt er komið í kaldakol, reynir forysta Samfylkingarinnar að bíta frá sér með Evrópumálunum. Í slíkri varnarbaráttu fórnar forystan peði á borð við varaborgarfulltrúa eins og að drekka vatn, einkum þegar hann dirfist að benda á hið augljósa, að keisarinn sé án klæða.

Tuesday, December 23, 2008

ESB í nösunum á Samfylkingunni

Innmúraður Samfylkingarmaður upplýsir í dag að innganga í ESB sé bara í nösunum á forystumönnum flokksins. Samfylkingin hafi samþykkt í póstkosningu árið 2002 að skilgreina samningsmarkmið áður en sótt yrði um aðild en þeirri vinnu hafi ekki verið sinnt í 6 ár!

Stefán Jóhann Stefánsson, varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar, gefur Ingibjörgu Sólrúnu og Össuri rækilega utan undir í Morgunblaðsgrein: „Öfugt við það sem ýmsir forystumenn halda fram er Samfylkingin því ekki í stakk búin til að styðja umsókn um aðild að ESB ef hún ætlar að virða sínar eigin lýðræðislegu samþykktir.“

Fyrir utan afskiptaleysið um málefnið í ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins hefur forysta Samfylkingarinnar gerst sek um margra ára sinnuleysi um Evrópumálin. Samfylkingin virtist hafa frumkvæði í Evrópumálunum þegar flokksbroddar hennar höfðu sem hæst í stjórnarandstöðu en Stefán Jóhann hefur afhjúpað sína eigin menn sem marklausa froðusnakka.

Ég hef lagt áherslu á Evrópumálin innan Framsóknarflokksins og tel rétt að láta reyna á aðildarumsókn með tilliti til hagsmuna Íslands og Íslendinga. Ég hef stundum verið spurður hvers vegna Framsóknarflokkurinn ætti að taka Evrópumálin upp á arma sína, hvort atkvæðinu væri þá ekki jafnvel varið á Samfylkinguna. Mitt svar hefur m.a. verið að við látum verkin tala – erum t.a.m. búin að skilgreina samningsmarkmiðin. Nú þarf ekki að taka bara orð mín fyrir því lengur, þegar meira að segja Samfylkingarmennirnir sjálfir benda á að Evrópustefna Samfylkingarinnar sé orðin tóm.

Við lestur greinarinnar eftir varaborgarfulltrúa Samfylkingarinnar læðist að mér sá grunur að Evrópusambandsaðild hafi aldrei átt að vera annað en Potemkín-tjöld til að laða Evrópusinnaða kjósendur að flokknum á fölskum forsendum. Framkvæmdastjórn flokksins skipaði Stefán Jóhann í starfshóp um samningsmarkmiðin en hópurinn hefur aldrei komið saman þrátt fyrir að fulltrúar hans hafi ítrekað óskað eftir því.

„Enn hefur engin sjáanleg vinna farið fram um samningsmarkmiðin meðal flokksmanna með þeim hætti sem samþykkt var í póstkosningunni 2002 og áréttað í landsfundarsamþykktum eftir það. Þjóðin veit því enn ekkert um hvað Samfylkingin vill semja, þ.e. hver stefna hennar sem flokks er þegar kæmi að því að semja. Í hálfan áratug hefur það verið látið hjá líða að skilgreina samningsmarkmiðin.“

Ólíkt Samfylkingarforystunni er mér fyllsta alvara þegar ég segi að stjórnvöld verði hið fyrsta að leggja fram umsókn um aðild að ESB. Íslenska krónan á sér ekki framtíð og engar aðrar leiðir virðast færar en að taka evru upp sem gjaldmiðil að undangenginni aðild að ESB. Mikilvægt er hins vegar að markmið Íslendinga í samningsviðræðum séu skýr og samningur verði lagður undir þjóðaratkvæði. Ákvörðun um umsókn mun eyða óvissu í gjaldmiðilsmálum og auka trúverðugleika Íslands á alþjóðavettvangi. Þannig munum við enn fremur styrkja allt eftirlit á fjármálamarkaði sem ekki er vanþörf á í ljósi atburða þessa árs.