Ríkisskattstjóri segir í fréttum RÚV að enginn vafi leiki á því að ótilgreindum milljörðum króna hafi verið komið undan til aflandseyja fyrir hrun bankanna og Stöð 2 segir að efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjórans rannsaki grunsamlegar millifærslur upp á hundrað milljarða króna frá Kaupþingi á Íslandi inn á erlenda bankareikninga.
Stórfelldur útflutningur á fjármunum úr bönkunum getur ekki hafa verið á vitorði bara eins eða tveggja innan bankanna. Fleiri hafa búið yfir slíkri vitneskju og þagað - þangað til fyrir hálfum mánuði, ef trúa má fréttunum. Stjórnendur nýju bankanna voru flestir stjórnendur í gömlu bönkunum. Hversu trúverðug er rannsókn á aðdraganda hrunsins á fjármálamarkaði án aðkomu óháðra aðila með yfirgripsmikla þekkingu á bankaviðskiptum á alþjóðavettvangi?
Almenningur ber byrðarnar og ætlast til þess að málin verði upplýst. Ég hef lagt til og sé ástæðu til að ítreka það að erlendir sérfræðingar, sem hvorki tengjast íslenskum stjórnmálaflokkum, bönkum eða viðskiptamönnum, verði fengnir til að stýra rannsókn um hrunið og einnig til að hafa eftirlit með rekstri nýju bankanna.
Stjórnvöld hafa hag af því ekki síður en almenningur. Þau liggja eðlilega undir ámæli um að hafa gripið seint og illa inn í atburðarásina.
Sunday, December 28, 2008
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment