Thursday, January 15, 2009

Skuldbreyting heimilanna


Stjórnvöldum hefur loksins skilist að almenningur lætur ekki lengur bjóða sér samtryggingu fjármálakerfisins og fyrirskipuðu breytingar á stjórn nýju ríkisbankanna. Betra seint en aldrei. Stjórnmálamennirnir eru samt áfram fastir í gamaldags samtryggingarhugarfari þar sem þeir skipuðu bankaráðin pólitískt en ekki á faglegum grunni.
Því miður bíða okkar erfiðir tímar sem geta leikið heimili og fyrirtæki grátt. Verðbólga hækkar skuldir í gegnum verðtryggð lán og gengisfall krónunnar veldur hækkun á afborgunum erlendra lána. Við þetta bætist að tekjur launafólks fara lækkandi. Af þessu leiðir að margir munu ekki geta staðið við skuldbindingar. Þess vegna þarf að lækka skuldir eða greiðslubyrði.
Bjóða þarf upp á greiðsluaðlögun þannig að afborganir af húsnæðislánum fari ekki upp fyrir tiltekið hlutfall heildartekna, t.d. 20–30%. Hluti af skuldunum er þá í skilum en almenningi er jafnframt gert kleift að standa undir rekstri heimila sinna. Sá hluti skuldanna, sem ekki er greitt af, verði frystur.

Sanngjarnar reglur
Ríkisstjórnin verður að tryggja að bankar og lífeyrissjóðir veiti svikalaust sömu aðstoð vegna greiðsluerfiðleika og Íbúðalánasjóður. Þessum tilmælum hefur ekki verið sinnt og þarf því væntanlega að hnykkja á því í lögum. Greiðsluerfiðleikaaðstoð Íbúðalánasjóðs felst í því að lán eru fryst til allt að þriggja ára, lánstíminn lengdur og vanskil færð í skuldabréf.

Loks verður að útfæra leið til skuldbreytingar á almennum húsnæðislánum þegar allar forsendur liggja fyrir, svo sem hvernig farið er með gjaldeyrislán, hvernig efnahagsreikningur nýju bankanna muni líta út og þar með styrkur þeirra og niðurstaða liggur fyrir um athugun Seðlabankans á áhrifum efnahagshrunsins á heimilin. Stjórnvöld verða að lýsa yfir vilja til að afskrifa hluta af húsnæðislánum þeirra sem verst verða staddir þegar rykið sest. Annars er hætta á að fjölskyldur missi heimili sín og aleigu til banka og lífeyrissjóða. Gleymum því ekki að þessir sömu bankar og lífeyrissjóðir eru eign fólksins í landinu.

birt í Fréttablaðinu 15.janúar 2009

4 comments:

  1. Nákvæmlega - þetta er formannsefni sem hugsar í lausnum, Páll er formaðurinn sem við þurfum í framsóknarflokkinn.

    Ég hreinlega skil ekki sinnuleysi Sigmundar og Höskuldar gagnvart framsóknarmönnum. Það varla heyrist hóst né stuna úr þeirra ranni um lausnir á þeim vanda sem þjóðin stendur frammi fyrir.

    Hvernig væri að fá hugmyndir að lausnum frá þeim - nema þeir séu ekkert að hugsa um Jón og Gunnu þessa lands. Líklega liggur skýringin reynsluleysi þeirra....

    Það vantar reynslu og dugnað í þessa stráka, hlutirnir gerast ekki að sjálfu sér, heldur þarf að hafa fyrir þeim, vinna sig upp í flokknum og læra af mistökum fyrrum ráðamanna.

    Páll fær mitt atkvæði á sunnudaginn, ekki spurning. Hvet framsóknarmenn um að gera slíkt hið sama.

    Framsóknarmaður

    ReplyDelete
  2. Áhugaverðar hugmyndir hjá Páli. Raunsæjar en samt árangursríkar. Vonandi komast þessar hugmyndir á koppinn áður en við missum of mikið af ungu fólki úr landi.

    Reynsla Færeyinga er sú að erfitt er að ná þessu fólki til baka aftur.

    ReplyDelete
  3. Þetta er ágæt tillaga hjá þér í byrjun pistilsins, en varðandi frystinguna þá er það næstum vonlaust nemá sá hluti lánsins sem frystur er sé á meðan án verðbóta og vaxta.
    Hreinlegast er að afskrifa stóran hluta höfuðstólsins strax, og miða restina við annað hvort lóða og brunabótamat og eða greiðslugetu.
    Nýtt lán er tekið og tengt við vísitölu íbúðaverðs og er ekki lengra en 30 ár og á jöfnum afborgunum með hagstæða vexti, ekki hærri en 5,8%. Þau íbúðalán sem eru nú útistandandi verða tekinn í þessa meðferð. Ný lán verði undir sömu skilmálum.
    Gangi þér annars vel, en ég persónulega myndi frekar kjósa spaugstofuna en einhvern af þeim flokkum sem nú eru á þingi.

    ReplyDelete
  4. Varðandi fyrstu kaup fólks á næstu misserum þá verður íbúðaverð eflaust mjög nálægt lóða og brunabótamati. Hér gæti verið að myndast 2 hópar fasteignaeiganda á svipuðum aldri þó.
    Annar hópurinn er nýlega búinn að kaupa húsnæði´með 50 til 100% álagningu en hinn með 10 til 15% álagningu á brunabóta og lóðamat.
    Það yrði mjög áhugavert að bera saman fjölskyldulíf þessa tveggja hópa eftir kannski 10-15 ár.

    ReplyDelete