Sunday, December 7, 2008

Horft til framtíðar

Í grein minni í Fréttablaðinu í síðustu viku voru lagðar fram tillögur til að bregðast við stórauknum skuldum heimila og fyrirtækja. Þar var lagt til að skuldir yrðu afskrifaðar, gengið yrði til viðræðna við Evrópusambandið um inngöngu í það og breytingar gerðar á stjórn Seðlabanka Íslands. Hér eru lagðar fram tillögur um uppbyggingu atvinnulífs og nauðsynlegar breytingu á starfsháttum í stjórnmálum.

Áhersla á nýsköpun
Fjölmargir hafa bent á þá leið sem Finnar fóru í atvinnuþróun fyrir nærri 20 árum. Mikilvægt er að stjórnvöld ljúki við þá stefnumótun, sem þegar hefur verið hafin hér að finnskri fyrirmynd. Hún hefur þegar að hálfu leyti verið farin hér. Með samþykkt laga um Vísinda- og tækniráð árið 2003 var vísindarannsóknum og tækniþróun komið í svipaðan farveg og í Finnlandi, enda kemur fram í athugasemdum með frumvarpinu að skipulag rannsóknarmála í Finnlandi hafi verið haft til hliðsjónar við gerð þess. Auk þessa voru sett ný lög árið 2003 um opinberan stuðning við vísindarannsóknir og opinberan stuðning við tækniþróun og nýsköpun. Nýir sjóðir tóku til starfa, sem hafa yfir mun meira fjármagni að ráða til stuðnings vísinda- og tæknirannsóknum í landinu en áður hefur þekkst. Allar þessar breytingar voru gerðar með hliðsjón af reynslu Finna og reyndar var einnig horft til annarra þjóða sem hafa náð góðum árangri, eins og Íra, Skota, Dana og Ástrala. Gerðir hafa verið vaxtarsamningar, unnið að uppbyggingu þekkingarsetra og klasamyndun fyrirtækja – allt að finnskri fyrirmynd. Mikilvægt er að leggja meira fé til vísindarannsókna og í opinberan stuðning við tækniþróun og nýsköpun og ljúka við að sameina stofnanir sem sinna atvinnuþróun í landinu.

Fjármagn til orkufyrirtækja
Skoða ber möguleika á því að lífeyrissjóðir eigi kost á að lána orkufyrirtækjunum fé til framkvæmda. Afar brýnt er að uppbygging orkumannvirkja haldi áfram enda slíkar framkvæmdir mannfrekar og leiða til útflutningsverðmæta síðar meir. Aðgangur orkufyrirtækja að lánsfjármagni er takmarkað í þeirri lánsfjárkreppu sem nú ríkir á heimsvísu. Þá hefur lækkandi lánshæfismat íslenska ríkisins neikvæð áhrif, a.m.k. á Landsvirkjun.

Styrking sveitarfélaga
Sveitarfélögin í landinu munu gegna lykilhlutverki næstu misseri. Aukið atvinnuleysi mun koma mjög við þeirra starfsemi, m.a. félagsþjónustu þeirra. Þá er afar mikilvægt að þyngri rekstur hafi ekki þau áhrif að þjónustugjöld hækki. Hækkun þeirra skilar sér beint í verðlag og heldur uppi verðbólgu. Hlutdeild sveitarfélaga í tekjuskatti þarf að auka um 1% gegn skuldbindingu um óbreytt þjónustugjöld. Með þessu ásamt aðgangi að ódýru fjármagni geta sveitarfélögin ráðist í ýmsar mannaflsfrekar framkvæmdir á næstu árum og unnið þannig gegn auknu atvinnuleysi.

Breytingar á lýðræðisháttum
Kallað er eftir breytingum. Ekki aðeins á háttum viðskiptalífsins heldur ekki síður á stjórnarháttum hins opinbera. Pukur og leynd yfir ákvörðunum ríkisstjórnar, þar sem Alþingi virðist ekki einu sinni haft með í ráðum, leiðir til aukinnar tortryggni í garð ríkisstjórnar og yfirvalda og vantrúar á ákvarðanir þeirra. Nýja Ísland verður ekki reist með því að klastra aftur upp rústunum eftir hrunið í síðasta mánuði. Reisa á Nýtt Ísland á nýjum gildum þar sem helmingaskiptum, geðþótta og pólitískri samtryggingu er gefið langt nef. Skipun pólitískra bankaráða nýju bankanna sýnir að stjórnmálamenn dagsins í dag skynja ekki kall fólksins í landinu eftir breytingum. Slíkt ætti að heyra sögunni til og virkar nánast eins og ögrun gagnvart þjóðinni. Það verður að auka þátttöku almennings í lýðræðislegum ákvörðunum m.a. með lagasetningu um þjóðaratkvæðagreiðslu. Það verður að stórauka vald Alþingis á kostnað framkvæmdavaldsins, gera landið að einu kjördæmi til að brjótast út úr landlægu hagsmunapoti en ekki síður til að jafna vægi atkvæða í landinu. Í dag sitja ungar fjölskyldur í landinu á rökstólum og ræða hvort flytja skuli búferlum til annarra landa. Verði ekki vart við breytingar til batnaðar á Íslandi hverfur margt okkar besta fólk. Skynji íslensku stjórnmálaflokkarnir ekki kröfu breytinga þarf nýtt fólk í forystu þeirra, ellegar nýja flokka.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 22. nóvember 2008.

No comments:

Post a Comment