Sunday, December 21, 2008

Háskólinn undir hnífinn – keyrt út af finnsku leiðinni

Ráðaleysi ríkisstjórnarinnar er algjört. Hún ætlar hvorki að taka ábyrgð á fortíðinni né á framtíðinni.

Þegar við blasir atvinnuleysi þúsunda í kjölfar bankahruns, sem ríkisstjórnin gat komið í veg fyrir hefði hún staðið vaktina, sker hún niður fjárframlög til Háskóla Íslands. Nú er svo komið að Háskólinn getur ekki tekið inn þá ríflega 1600 umsækjendur sem sóttu um háskólanám á vorönn. Samt höfðu stjórnvöld biðlað til háskólanna að taka við fleiri nemendum um áramótin vegna atvinnuástandsins.

„Niðurskurðurinn er talsvert meiri en við áttum von á og hlutfallslega meiri en hjá öðrum háskólum,“ segir Kristín Ingólfsdóttir í viðtali við Morgunblaðið á vefnum. „Þetta er gríðarlega sársaukafullt fyrir skólann. Við munum gera það sem við getum því við viljum mæta okkar samfélagslegu ábyrgð.“

Betur væri að fleiri viðurkenndu sína samfélagslegu ábyrgð eins og háskólarektor. Hvað ætlast ríkisstjórnin til að þessir umsækjendur um háskólanám geri, nú þegar búið er að mæla fyrir um milljarð króna niðurskurð hjá HÍ?

„Það segir sig sjálft að við getum ekki bæði tekið við kröfu um milljarð í niðurskurð og tekið við 1600 nýjum nemendum í skólann,“ segir Kristín. „Við þurfum að hugsa um gæði námsins því engum er greiði gerður með því að minnka kröfurnar. Að lokum værum við að gera samfélaginu grikk með því.“

Ýmsum stjórnarliðum, þar á meðal ráðherrum í ríkisstjórninni, hefur orðið tíðrætt um finnsku leiðina út úr kreppunni. Þar var stutt við vísindarannsóknir, tækniþróun og nýsköpun, myndaðir fyrirtækjaklasar og byggð upp þekkingarsetur. Við höfum farið finnsku leiðina að nokkru marki undanfarin ár en ríkisstjórnin var að beygja út af þeirri lið. Hún er komin út í móa.

No comments:

Post a Comment