Tuesday, December 23, 2008

ESB í nösunum á Samfylkingunni

Innmúraður Samfylkingarmaður upplýsir í dag að innganga í ESB sé bara í nösunum á forystumönnum flokksins. Samfylkingin hafi samþykkt í póstkosningu árið 2002 að skilgreina samningsmarkmið áður en sótt yrði um aðild en þeirri vinnu hafi ekki verið sinnt í 6 ár!

Stefán Jóhann Stefánsson, varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar, gefur Ingibjörgu Sólrúnu og Össuri rækilega utan undir í Morgunblaðsgrein: „Öfugt við það sem ýmsir forystumenn halda fram er Samfylkingin því ekki í stakk búin til að styðja umsókn um aðild að ESB ef hún ætlar að virða sínar eigin lýðræðislegu samþykktir.“

Fyrir utan afskiptaleysið um málefnið í ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins hefur forysta Samfylkingarinnar gerst sek um margra ára sinnuleysi um Evrópumálin. Samfylkingin virtist hafa frumkvæði í Evrópumálunum þegar flokksbroddar hennar höfðu sem hæst í stjórnarandstöðu en Stefán Jóhann hefur afhjúpað sína eigin menn sem marklausa froðusnakka.

Ég hef lagt áherslu á Evrópumálin innan Framsóknarflokksins og tel rétt að láta reyna á aðildarumsókn með tilliti til hagsmuna Íslands og Íslendinga. Ég hef stundum verið spurður hvers vegna Framsóknarflokkurinn ætti að taka Evrópumálin upp á arma sína, hvort atkvæðinu væri þá ekki jafnvel varið á Samfylkinguna. Mitt svar hefur m.a. verið að við látum verkin tala – erum t.a.m. búin að skilgreina samningsmarkmiðin. Nú þarf ekki að taka bara orð mín fyrir því lengur, þegar meira að segja Samfylkingarmennirnir sjálfir benda á að Evrópustefna Samfylkingarinnar sé orðin tóm.

Við lestur greinarinnar eftir varaborgarfulltrúa Samfylkingarinnar læðist að mér sá grunur að Evrópusambandsaðild hafi aldrei átt að vera annað en Potemkín-tjöld til að laða Evrópusinnaða kjósendur að flokknum á fölskum forsendum. Framkvæmdastjórn flokksins skipaði Stefán Jóhann í starfshóp um samningsmarkmiðin en hópurinn hefur aldrei komið saman þrátt fyrir að fulltrúar hans hafi ítrekað óskað eftir því.

„Enn hefur engin sjáanleg vinna farið fram um samningsmarkmiðin meðal flokksmanna með þeim hætti sem samþykkt var í póstkosningunni 2002 og áréttað í landsfundarsamþykktum eftir það. Þjóðin veit því enn ekkert um hvað Samfylkingin vill semja, þ.e. hver stefna hennar sem flokks er þegar kæmi að því að semja. Í hálfan áratug hefur það verið látið hjá líða að skilgreina samningsmarkmiðin.“

Ólíkt Samfylkingarforystunni er mér fyllsta alvara þegar ég segi að stjórnvöld verði hið fyrsta að leggja fram umsókn um aðild að ESB. Íslenska krónan á sér ekki framtíð og engar aðrar leiðir virðast færar en að taka evru upp sem gjaldmiðil að undangenginni aðild að ESB. Mikilvægt er hins vegar að markmið Íslendinga í samningsviðræðum séu skýr og samningur verði lagður undir þjóðaratkvæði. Ákvörðun um umsókn mun eyða óvissu í gjaldmiðilsmálum og auka trúverðugleika Íslands á alþjóðavettvangi. Þannig munum við enn fremur styrkja allt eftirlit á fjármálamarkaði sem ekki er vanþörf á í ljósi atburða þessa árs.

2 comments:

  1. Ok. Hver telur þú að eigi að vera samningsmarkmið Íslendinga?

    ReplyDelete
  2. Samningsmarkmiðin voru skilgreind í skýrslu Evrópunefndar Framsóknarflokksins, sem kom út í mars 2007. Hana má finna hér: http://framsokn.is/files/2179-0.pdf
    eða á Evrópugátt á www.framsokn.is.

    ReplyDelete