Saturday, December 27, 2008

Keisari án klæða

Kristrún Heimisdóttir, aðstoðarmaður Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur utanríkisráðherra, formanns Samfylkingarinnar, segir Stefán Jóhann Stefánsson, varaborgarfulltrúa flokksins, „sýna þekkingarleysi á sögu og stefnu Samfylkingarinnar“ þegar hann gagnrýnir flokkinn sinn fyrir að fara á svig við eigin lýðræðislegar reglur og láta undir höfuð leggjast að afla sér umboðs til að hefja viðræður um aðild að ESB.

Ég er einn af þeim sem hef lagt út af orðum varaborgarfulltrúans sem mætti ætla að vissi um hvað hann væri að tala, innmúraður Samfylkingarmaður og sérstakur fulltrúi flokksins í starfshópi um markmið aðildarsamninga. Ég las því „leiðréttingu“ Kristrúnar gaumgæfilega en sé að efnisatriðunum í málflutningi Stefáns Jóhanns er hvergi mótmælt, aðeins látið í það skína að hann sé ólæs á sögu og stefnu flokksins.

Þótt Kristrúnu hafi verið sigað að hætti hússins til að ófrægja og þannig þagga niður í óþægilegri gagnrýnisrödd innan flokksins, er ekkert í „leiðréttingunni“ úr utanríkisráðuneytinu sem hnekkir því sem Stefán Jóhann hefur sagt. Forysta Samfylkingarinnar er umboðslaus og getur ekki gengið til samninga um aðild að Evrópusambandinu án þess að brjóta samráðsreglur innan flokksins sem settar hafa verið með lýðræðislegum hætti.

Samfylkingin hélt útsölu á stefnumálum sínum þegar hún myndaði ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum. Allt var falt fyrir völdin. Hafi Framsóknarflokkurinn verið hækja, þá er Samfylkingin skækja. Núna fyrst, þegar ríkisstjórnin er búin að æsa þjóðina upp á móti sér með vítaverðum lausatökum á efnahagsmálunum og allt er komið í kaldakol, reynir forysta Samfylkingarinnar að bíta frá sér með Evrópumálunum. Í slíkri varnarbaráttu fórnar forystan peði á borð við varaborgarfulltrúa eins og að drekka vatn, einkum þegar hann dirfist að benda á hið augljósa, að keisarinn sé án klæða.

5 comments:

  1. Eftirfarandi fann ég nú á netinu úr verkefni hjá Háskólanum á Akureyri. "Á stofnfundi Samfylkingarinnar árið 2000 bar Félag Frjálslyndra Jafnaðarmanna ásamt Ungum Jafnaðarmönnum og nokkrum félögum úr Alþýðubandalaginu gamla fram tillögu um að það yrði stefna flokksins að Ísland sæki um aðild að ESB. Tillögunni var vísað til stjórnar sem lét gera viðamikla úttekt á kostum og göllum aðildar að ESB. Úttektin var lögð fram í bókinni Ísland í Evrópu á fyrsta reglulega landsfundi flokksins haustið 2001. Landsfundurinn ákvað að setja málið í póstkosningu meðal allra félagsmanna haustið 2002. Tæplega 85% þeirra sem tóku þátt í kosningunni svöruðu spurningunni játandi og Samfylkingin tók í kjölfarið, einn flokka á Íslandi, upp stefnu Alþýðuflokksins frá árinu 1995 og hefur haft það að stefnu að Ísland eigi að sækja um aðild að Evrópusambandinu"

    Þannig að ég er nú á því að Stefán þessi hafi nú ekki fylgst nógu vel með á landsfundum. Þá stendur og í landsfundarsamþykktum að: Ná eigi víðtækri sátt í þjóðfélaginu um samningsmarkmið okkar í aðildaviðræðum" En til þess að svo megi verða verður náttúrulega að ákveða að undirbúa aðildaviðræður.

    ReplyDelete
  2. Framsóknarfólk og flokkurinn allur kemur venjulegu fólki fyrir sjónir sem samansafn spilltasta fólks sem um getur. Flokkur þar sem eiginhagsmunir, græðgi og siðleysi einkennir allt starf, bæði innra og ytra. Þið eruð flokkurinn sem hefur mokað af gengdarlausri græðgi í kistur ykkar valdamanna, tekið eignir fólksins ófrjálsri hendi og viðhaldi spillingu í viðskiptalífi og iðnaði. Þið berið höfuðábyrgð á ástandi því sem þjóðin er í með græðgisvaldapoti ykkar manna. Þið eruð flokkur Sycophanta sem leggst undir hvaða siðblindingja sem er.

    ReplyDelete
  3. Það væri mátulegt á Framsóknarflokkinn að fá mann eins og Pál Magnússon í formannsstólinn.

    ReplyDelete
  4. Í væntanlegum aðildarviðræðum Íslands og ESB:

    Hver telur væntanlegur formaður Framsóknarflokksins að samningsmarkmið Íslands eigi að vera? Hvað með landbúnaðarmálin? Þetta ætti formannskandítatinn að eyða sínum kröftum í að svara.

    Stjórnmálamenn sem miða allt sem þeir segja og hugsa við það sem keppinautar þeirra í öðrum flokkum meina ná sjaldan miklum árangri.

    ReplyDelete
  5. Evrópusambandsadild og þad straxxxxxxxxxxxx!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!Þad er ekkert annað sem kemur til grina ad mínu mati.Ef Ríkisstjórnin ætlar ad gera eitthvað loksins í þágu fólksins í landinu en ekki einhverja kvóta kalla!!!!!!!!!!

    ReplyDelete